Heimildarmenn NBC segja meðlimi ríkisstjórnar Trump hafa lagt fram spurningar um löglegar leiðir til að koma Gulen til Tyrklands í síðasta mánuði. Starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og Alríkislögreglu Bandaríkjanna töldu víst í fyrstu að um einhvers konar brandara væri að ræða. Þeir urðu hins vegar æfir þegar í ljós kom að Hvíta húsinu var alvara.
Hafa lengið viljað Gulen
Gulen hefur verið í útlegð frá Tyrklandi um árabil en Erdogan og bandamenn hans hafa sakað Gulen um að koma að skipulagningu valdaránstilraunar í Tyrklandi sumarið 2016. Tugir þúsunda hafa verið handteknir, vísað úr störfum sínum og fangelsaðir vegna meintra tengsla við hreyfingu Gulen, samkvæmt yfirvöldum í Tyrklandi.Tyrkir hafa farið fram á að Gulen verði framseldur til Tyrklands en þeir hafa þó ekki fært fram neinar sannanir máli sínu til stuðnings. Bandaríkin hafa því hingað til neitað að framselja Gulen. Erdogan hefur jafnvel sagt að bandaríska prestinum Andrew Brunson yrði sleppt úr haldi í Tyrklandi, ef Bandaríkin hefðu látið Gulen af hendi.
Hvíta húsið hefur meðal annars sagt dómsmálaráðuneytinu og FBI að taka framsalsbeiðni Tyrkja aftur fyrir og afhenda Hvíta húsinu skýrslu um lagalegu stöðu Gulen í Bandaríkjunum.
Þá segja heimildir NBC að embættismenn í Tyrklandi og Bandaríkjunum hafi rætt sín á milli að þvinga Gulen til að flytja frá Bandaríkjunum og til Suður-Afríku.
Í kjölfar fréttar NBC sendi Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna frá sér yfirlýsingu um að verið væri að fara yfir ný gögn sem Tyrkir hafi sent til Bandaríkjanna og þau snúi að Gulen. Talskona ráðuneytisins sagði það ekki koma morði Khashoggi við á nokkurn hátt.
Í fyrra bárust fregnir af því að yfirvöld Tyrklands hefðu boðið Mike Flynn, fyrrverandi hershöfðingja og þjóðaröryggisráðgjafa Trump, fimmtán milljónir dala fyrir hjálp við að ræna Gulen frá Bandaríkjunum.