Körfubolti

Helena: Vildi prófa eitthvað nýtt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Samningurinn handsalaður í dag
Samningurinn handsalaður í dag vísir/vilhelm
Valur vann lottóvinninginn í Domino's deild kvenna í dag þegar Helena Sverrisdóttir skrifaði undir samning við Hlíðarendafélagið.

Helena er uppalin í Haukum og varð Íslandsmeistari með þeim síðasta vor. Nú hefur hún hins vegar gengið til liðs við liðið sem barðist við Hauka í úrslitaeinvíginu, Val.

„Frábær klúbbur með flott orð á sér, mikill uppgangur og flott lið. Stelpurnar í liðinu, flottur þjálfari og Gugga systir,“ sagði Helena aðspurð afhverju hún hafi kosið að ganga til liðs við Val.

„Það var erfitt að fara frá Haukum en ég er bara ótrúlega spennt að vera komin hingað.“

Yngri systir Helenu, Guðbjörg Sverrisdóttir, spilar með Val og hafði það áhrif á ákvörðun Helenu að geta spilað með systur sinni.

„Það er allavega alveg risastór partur af þessu, alveg klárlega. En það er flott fólk í kringum klúbbinn og flottir þjálfarar. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt í staðinn fyrir að fara strax heim í Haukana.“

Helena og Guðbjörg eru báðar í íslenska landsliðshópnum sem mætir Slóvakíu og Bosníu í Laugardalshöll á næstu dögum. Hlé er á Domino's deildinni vegna landsleikjanna en næsti leikur Vals er gegn Haukum 25. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×