Körfubolti

Valsmenn kynna Helenu á blaðamannfundi í hádeginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik á móti Val á síðustu leiktíð.
Helena Sverrisdóttir í leik á móti Val á síðustu leiktíð. Vísir/Bára
Valsmenn hafa boðað til blaðamannafundar í hádeginu. Samkvæmt heimildum Vísis munu þeir opinbera það þar að Helena Sverrisdóttir ætli spila við hlið systur sinnar í Val í Domino´s deild kvenna í körfubolta í vetur.



Karfan.is sagði fyrst frá þessu en Íþróttadeild Vísis og Stöðvar tvö hefur einnig fengið þetta staðfest.

Samkvæmt heimildum Íþróttadeildar þá stóð valið hjá Helenu á milli þriggja liða eða Hauka, KR og Vals. Hún ákvað á endanum að semja við Hlíðarendaliðið.

Guðbjörg Sverrisdóttir, yngri systir Helenu, er fyrirliði Valsliðsins, en þær hafa ekki spilað í sama félagi í áratug eða síðan að Helena fór út í háskólanám haustið 2007.

Helena hefur spilað allan sinn feril hér heima með Haukum og hjálpaði liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor. Helena var þá fyrst allra til að vera með þrefalda tvennu í lokaúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en hún var þá með 20,2 stig, 12,2 fráköst og 10,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Haukar unnu einmitt Val í lokaúrslitunum þar sem úrslitaeinvígið fór alla leið í oddaleik.  Þetta var í þriðja sinn sem Helena verður Íslandsmeistari með Haukum.

Helena Sverrisdóttir spilaði með ungverska liðinu VBW CEKK Cegléd í vetur en Ungverjarnir stóðu ekki við sitt og Helena ákvað að koma heim.

Helena var með 14,3 stig að meðaltali í ungversku deildinni en hún skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í sínum síðasta leik með Cegléd.

Næstu leikir Helenu verða þó ekki með Val heldur eru tveir leikir framundan hjá henni með íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×