Fótbolti

Freyr stjórnaði æfingunni á meðan Hamrén fundaði upp á liðshóteli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson.
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson. Vísir/Getty
Íslenska fótboltalandsliðið er komið til Brussel í Belgíu þar sem liðið undirbýr sig fyrir leikinn á móti Belgíu á fimmtudaginn kemur. Landsliðsþjálfarinn stýrði þó ekki æfingu íslenska liðsins í gær.

Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins, var ekki út á velli þegar íslensku strákarnir tóku sína fyrstu æfingu í Belgíu í gær. Íslenska liðið var með æfingu á æfingavelli við hlið þjóðarleikvangs Belga.

Hamrén notaði tækifærið og fundað með helmingi hópsins upp á liðshóteli á meðan aðstoðarþjálfari hans Freyr Alexandersson, stýrði hinum hluta hópsins á æfingunni. Guðmundur Hilmarsson sagði frá þessu fyrirkomulagi gærdagsins í Morgunblaðinu í dag.

Erik Hamrén hefur ekki haft mikinn tíma með íslensku strákunum það sem af er í sínu starfi og þetta er augljóslega leið til að kynnast þeim betur.

Framundan er undankeppni EM á næsta ári og þá er mikilvægt að Erik Hamrén viti hvernig leikmenn og karaktera hann sé með í höndunum sem og að leikmenn íslenska liðsins þekki vel áherslur Svíans og taktík.

Vísir og Stöð 2 Sport er með sína menn út í Belgíu en Tómas Þór Þórðarson og Guðmundur Benediktsson munu flytja fréttir af liðinu á næstu dögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×