Erlent

Trump dregur niðurstöður loftslagsskýrslunnar í efa

Andri Eysteinsson skrifar
Trump stóð fyrir svörum fyrir utan Hvíta húsið í dag.
Trump stóð fyrir svörum fyrir utan Hvíta húsið í dag. EPA/ Shawn Thew
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna dregur í efa niðurstöður nýlegrar skýrslu í loftslagsmálum sem unnið var fyrir bandarísk yfirvöld.

Skýrslan dró fram dökka mynd af efnahagslegri framtíð Bandaríkjanna, erfiðleikum við ræktun matvæla og fleiri vandamálum.

Trump var spurður út í skýrsluna af blaðamönnum fyrir framan Hvíta húsið í Washington í dag. BBC greinir frá.

Trump sagði í viðtölum ekki trúa niðurstöðu skýrslunnar og sagði að aðrar þjóðir þyrftu að taka til hendinni í loftslagsmálum og nefndi þar helst Kína og Japan.

Trump sagði einnig að Bandaríkin hefðu aldrei verið „hreinni“ en sagði það ekki skipta máli ef heimurinn allur væri „skítugur“.

„Ég vil hreint loft, ég vil hreint vatn, mjög mikilvægt,“ sagði forsetinn.

Sjá einnig: Skýrsla um loftslagsmál lýsir erfiðleikum í framtíð Bandaríkjamanna

Áður hafði talskona Hvíta Hússins, Lindsay Walters sagt skýrsluna villandi og óáreiðanlega. Skýrslan gerði ráð fyrir allra verstu mögulegu útkomu og gerði ekki ráð fyrir þeim tækniframförum sem munu verða á næstu áratugum.

Í skýrslunni var til dæmis fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á efnahagslíf Bandaríkjanna.

Í skýrslunni var því spáð að fyrir lok 21. aldarinnar myndi árlegt tap á nokkrum efnahagssviðum nema hundruðum milljarða dala. Sú upphæð er meiri en verg landsframleiðsla margra ríkja Bandaríkjanna.

Fyrrum mótherji Trump í forsetakosningunum 2016, demókratinn Hillary Clinton, sakaði Trump stjórnina um óheiðarleika í kringum skýrsluna. Clinton sagði stjórnina hafa með því að birta skýrsluna daginn eftir Þakkagjörðahátiðina reynt að þagga hana niður.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×