Innlent

Velti bílnum eftir eftirför lögreglu

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla stöðvaði svo nokkra ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur.
Lögregla stöðvaði svo nokkra ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur. Vísir/Vilhelm
Ökumaður velti bíl sínum eftir eftirför lögreglu í höfuðborginni í nótt.

Í dagbók lögreglu segir að á fjórða tímanum hafi verið ekið á bíl í miðbænum og hafi tjónvaldurinn þá stungið af frá vettvangi. Skömmu síðar verða lögreglumenn varir við bílinn og sinnti ökumaðurinn hvorki ljós- né hljóðmerkjum lögreglu og endaði á því að velta bílnum. Reyndi hann þá að komast undan á hlaupum, en var handtekinn.

Í dagbók lögreglu segir einnig að skömmu eftir miðnætti hafi verið tilkynnt um mann sem reyndi að komast inn í bíl í bílastæðahúsi í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla handtók manninn sem reyndist erlendur, mjög ölvaður ferðamaður. „Hann gat ekki sagt lögreglu hvar hann gisti og var nánast ósjálfbjarga sökum ölvunar. Hann því vistaður í fangageymslu þar til af honum rennur og hægt verður að tala við hann.“

Fluttir á slysadeild

Í miðbænum var einnig tilkynnt um meðvitundarlausan karlmann á skemmtistað í miðbænum um klukkan eitt og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Sömuleiðis var tilkynnt um slasaðan mann á skemmtistað, meiddur á fæti, og var hann fluttur á slysadeild. Ekki sé vitað hver veittist að manninum.

Skömmu eftir klukkan eitt hafði maður dottið og rotast í miðbænum og var hann einnig fluttur á slysadeild. Sambærilegt atvik átti sér stað um klukkan 3:30, sömuleiðis í miðbænum.

Lögregla stöðvaði svo nokkra ökumenn vegna gruns um ölvun við akstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×