Fótbolti

Skilaboð frá Zlatan í stærsta íþróttablaði Ítala

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic vill spila fótbolta næstu mánuði.
Zlatan Ibrahimovic vill spila fótbolta næstu mánuði. Vísir/Getty
Ítalska pressan heldur áfram að skrifa um mögulega endurkomu Svíans Zlatan Ibrahimovic í ítalska fótboltann og nýjasta útspilið eru skilaboð frá Zlatan sjálfum í stórblaðinu La Gazzetta dello Sport í dag.

Zlatan Ibrahimovic er leikmaður Los Angeles Galaxy í bandarísku deildinni en MLS-liðið missti af úrslitakeppninni og næsta tímabil hefst síðan ekki fyrr en í sumar. Zlatan er því laus næstu mánuðina.





Zlatan hefur verið sterklega orðaður við AC Milan þar sem hann spilaði á árunum 2011 til 2012. Hann hefur sjálfur rætt þann möguleika alveg eins og forráðamenn AC Milan liðsins. Enginn hefur útilokað að Zlatan spili seinni hluta tímabilsins í Mílanóborg.

La Gazzetta dello Sport fékk viðtal við Zlatan Ibrahimovic og þar lætur hann líta út fyrir að hann sé með stjórn á atburðarrásinni.





„Komið og náið í mig,“ hefur La Gazzetta dello Sport eftir þessum 37 ára gamla Svía en þetta yrði þó aðeins sex mánaða samningur.

Blaðamaður La Gazzetta dello Sport segir að Zlatan bíði nú bara eftir símtali frá Leonardo, íþróttastjóra AC Milan. Zlatan segir jafnframt að hann ætli ekki að vera með háar launakröfur og sé tilbúinn að gera svona stuttan samning.

Leonardo þarf hinsvegar líka að styrkja liðið inn á miðjunni og í vörninni en það leynir sér ekkert að mesta spennan sé fyrir mögulegri endurkomu Zlatans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×