Yfirvöld Úkraínu hafa tilkynnt að rússneskum karlmönnum á aldrinum 16-60 verður ekki hleypt inn í landið á meðan herlög eru þar í gildi. Úkraínumenn segjast óttast innrás Rússa í kjölfar þess að Rússar skutu á og hertóku þrjú úkraínsk herskip og 24 sjóliða. Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, segir banninu ætlað að koma í veg fyrir myndun „einkaherja“ í Úkraínu.
Vísaði hann þar til aðskilnaðarsinna sem tóku stjórn á stóru svæði í austurhluta Úkraínu árið 2014, með stuðningi Rússa.
Sjá einnig: Vill að NATO sendi herskip til Asóvshafs
Yfirvöld Rússlands segjast ekki ætla að grípa til sambærilegra aðgerða og meina úkraínskum mönnum aðgang að Rússlandi.
Þing Úkraínu samþykkti herlög í tíu héruðum landsins í kjölfar atviksins í Kerchsundi þar sem áðurnefnd skip voru hertekin. Flest þeirra héraða liggja að landamærum Rússlands.
