Dauðarefsing er bundin í lög í landinu en enginn hefur verið tekinn af lífi á grundvelli þeirra frá árinu 1993 þó að fjöldi fólks hafi verið dæmdur til dauða.
Ouazid er einn fjögurra sem eru í haldi grunaðir um morðin á hinni norsku Ueland og hinni dönsku Jespersen. Hann var handtekinn ásamt tveimur öðrum í strætó í Marrakech í gær. Voru mennirnir með hnífa í fórum sínum.
Rætt er við bróðurinn á vef norska blaðsins VG. Þar segir hann að bróðir sinn og mennirnir hafi verið góðir vinir. Þeir hafi þekkt hvern annan í eitt til tvö ár og höfðu allir áhuga á að veiða fugla.
Hvarf frá heimilinu nokkrum dögum fyrir morðin
Said segir bróðir sinn hafa horfið frá heimilinu síðastliðinn fimmtudag og þau hafi ekki séð hann síðan en lík þeirra Ueland og Jespersen fundust á mánudagsmorgun.„Hafi bróðir minn gert þetta þá á hann skilið að deyja. Þetta er óafsakanlegt,“ segir Said.
Hann segir að bróðir sinn hafi búið í húsi fjölskyldunnar í Marrakech með konu sinni og dóttur.
„Ef mig hefði grunað að það væri eitthvað að hjá honum þá hefði ég tilkynnt yfirvöldum það. […] Hann lifði venjulegu lífi en var heilaþveginn,“ segir Said.
Hann segir móður sína viti sínu fjær vegna málsins. Hún trúi því ekki að þetta sé sonur hennar sem sé í haldi lögreglu vegna morðanna.
„Hún segir: „Þetta er ekki sonur minn, þetta er ekki sonur minn.“ Við höldum henni frá fjölmiðlum. Hún er í afneitun,“ segir Said.
Morðin eru rannsökuð sem hryðjuverk. Yfirvöld í Danmörku og Noregi hafa til rannsóknar myndband sem talið er sýna morðið á að minnsta kosti annarri konunni.
Myndbandið var í dreifingu á samfélagsmiðlum í gær en yfirvöld hafa biðlað til almennings um að horfa hvorki á myndbandið né dreifa því. Frá því er svo greint í norskum fjölmiðlum í morgun að talið sé að myndbandið sé ósvikið.