Innlent

Verkalýðsfélag Akraness slítur sig einnig frá SGS

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness. vísir/vilhelm
„Ég er búinn að senda formlegt erindi til formanns Starfsgreinasambandsins um að Verkalýðsfélag Akraness hafi tekið ákvörðun um að draga samningsumboð sitt til baka og það er einlæg von okkar að við myndum öflugt og sterkt bandalag með VR og Eflingu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Vísi.

Félagið fylgir þar með fordæmi Eflingar sem í gær ákvað að draga samningsumboð sitt til SGS einnig til baka.

Báðir formennirnir, Vilhjálmur og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, voru á meðal þeirra sjö formanna innan SGS sem vildu vísa samningaviðræðum sambandsins við SA til ríkissáttasemjara, en ekki var meirihluti fyrir því innan sambandsins.

Vilhjálmur segir það alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness muni vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara, annað hvort í dag eða á morgun.

Það eina sem sé óljóst varðandi það að vísa deilunni til sáttasemjara sé hvort það verði gert í samfloti með Eflingu og VR.

Vilhjálmur segir að það ætti að liggja fyrir í dag eða á morgun hvort að félögin þrjú myndi með sér formlegt bandalag við samningaborðið og vísi þá deilunni saman til ríkissáttasemjara.

Það að vísa kjaradeilunni þangað færir félögin þrjú nær aðgerðum, til að mynda verkföllum, því áður en hægt er að boða til verkfalla eða annarra aðgerða þarf að vera búið að halda fundi hjá sáttasemjara.


Tengdar fréttir

Efling slítur sig frá SGS

Samninganefnd Eflingar hefur dregið samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×