Innlent

Heimtaði far heim af lögregluþjónum

Samúel Karl Ólason skrifar
Svo virðist sem að nokkuð hafi verið um akstur ökumanna undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis.
Svo virðist sem að nokkuð hafi verið um akstur ökumanna undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Vísir/Vilhelm
Ölvaður maður heimtaði far heim af lögreglunni í nótt en var handtekinn fyrir vikið. Þar sem lögregluþjónar voru við störf í miðbænum og höfðu stöðvað bíl með kveikt á neyðarljósum, kom maðurinn askvaðandi að bílnum, opnaði hurðina og heimtaði far.

Hann neitaði að fara þegar reynt var að vísa honum í burtu og vildi ekki gefa upp nafn né kennitölu. Því var hann færður á lögreglustöð þar sem, samkvæmt dagbók lögreglu, reynt var að ræða við hann. Honum var síðan sleppt.

Þá segir lögreglan að töluvert hafi verið um tilkynningar vegna ölvunar, hávaða frá samkvæmum og hávaða og tjóns vegna flugelda. Rúður hafi verið brotnar, póstkassi hafi verið sprengdur og fleira.

Einn maður var handtekinn í Breiðholti vegna gruns um innbrot, þjófnað, hylmingu og vörslu fíkniefna.

Auk þessa virðist sem að nokkuð hafi verið um akstur ökumanna undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×