„Það er ekki þannig að skemmdirnar séu það miklar að vélin verði frá í lengri tíma,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, aðspurð um ástandið á nýrri þotu félagsins sem skemmdist illa að kvöldi jóladags.

Þotan, sem ber einkennisstafina TF-ICY og nafnið Látrabjarg, var tengd landganginum þegar hún snerist til og hurðin því galopin þegar vélin fór af stað í hvassviðrinu og vængur hennar skall á rananum.
Vélin hafði komið til lands á aðfangadag klukkan hálf fjögur en engar flugferðir voru á jóladag. Yfirmaður flugrekstrarsviðs Icelandair sagði atvikið hafa komið á óvart þar sem ekki hafði verið spáð miklum vindi þetta kvöld og því hafi ekki verið gengið betur frá þotunni. Eftir óhappið var hún dregin inn í flugskýli og hefur verið þar síðan.

„Viðgerðin er nokkuð flókin en einangruð við ákveðið svæði. Við höfum hins vegar ákveðið að nýta tímann til að gera aðrar breytingar á vélinni svo tími úr rekstri ræðst ekki lengur af tímanum sem mun taka að gera við skemmdina,“ segir í svari Ásdísar við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Aðspurð hvort hvort þetta hafi valdið tjóni að missa út nýja vél með þessum hætti segir Ásdís:
„Það er ákveðið tjón að njóta ekki aðgangs að nýrri vél vegna þess að þá þarf að nota aðrar vélar í staðinn. Þetta hefur hins vegar ekki valdið neinum truflunum á áætlun. Málið er í skoðun hjá tryggingafélögum.“