Í frétt Ríkisútvarpsins frá því fyrr í mánuðinum segir að embætti landlæknis óttist að ofvirknigreiningar séu óhóflegar hér á landi, í fyrra hafi þó í fyrsta sinn dregið úr ávísunum lækna á ofvirknilyf eins og Rítalín. Ólafur B. Einarsson sérfræðingur hjá Landlækni segir þetta stórar fréttir enda hafi notkun lyfjanna þrefaldast á árunum 2008 til 2017.
Í ályktun samtakanna segir einnig, „Jafnframt felur þetta í sér alvarlega aðdróttun um að íslenskir geðlæknar og sálfræðingar hafi um árabil stundað kerfisbundið fúsk við greiningar á ADHD og læknisfræðilegar ráðleggingar þeim tengdum.“
Þessu hafnar stjórn ADHD samtakanna og bendir á að greiningar á ADHD og úrræði þeim tengd, byggi á leiðbeiningum Embættis Landlæknis og ekkert bendi til þess að staðan sé jafn alvarleg og starfsmenn landlæknis gefi nú í skyn.
Samtökin krefjast þess að embætti landlæknis dragi til baka dylgjur starfsmanna um ofgreiningar og ofnotkun lyfja vegna ADHD sem samtökin segja að sé til þess eins fallin að ala á fordómum í garð einstaklinga með ADHD.