Allt of mörg börn í ónefndum leikskóla í Reykjanesbæ voru ekki í bílbeltum eða öðrum viðurkenndum búnaði þegar forráðamenn þeirra óku þeim í skólann í morgun. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum greinir frá þessu sem segir niðurstöður úr eftirliti sínu í morgun allt aðrar en góðar.
„Við höfðum afskipti af á milli 25-30 ökumönnum og vorum við að kanna með notkun öryggisbúnaðar ökumanna og afar dýrmæts farms þeirra, litlu barnanna sem voru á leið í leikskólann,“ segir í tilkynningunni.
Í ljós hafi komið að allt of margir voru með öryggismálin í ólagi og sé það miður. Of mörg börn hafi ekki verið í bílbeltum eða öðrum viðurkenndum búnaði.
„Það að ferðin sé svo stutt eða þá að fólk sé í tímaþröng er óafsakanlegt þegar kemur að öryggi okkar sjálfra og barnanna okkar í umferðinni. Við skulum öll leggjast á eitt og laga þetta þannig að allir verði með þetta í lagi þegar við verðum næst við samskonar eftirlit við leik- eða grunnskóla í umdæminu.“
Nánar um öryggi barna í bílum.
