Innlent

Hafa ekki val um annað en að fara í þriðju meðferðina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gunnar Ásgeir Ásgeirsson og Guðfinna Jakobsdóttir Hjarðar ræddu sögu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Gunnar Ásgeir Ásgeirsson og Guðfinna Jakobsdóttir Hjarðar ræddu sögu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Arnar

Pari sem hefur farið í tvær misheppnaðar glasafrjóvganir líður eins og annars flokks þegnum eftir breytingar á greiðsluþátttöku við tæknifrjóvganir. Ófrjósemi sé að aukast og fæðingum að fækka og því skjóti skökku við að stjórnvöld leggi stein í götu þeirra sem vilja ráðast í barneignir.

Reglugerð um greiðsluþátttöku við tæknifrjóvganir tók breytingum nú um áramót. Eftir breytingu tekur ríkið þátt í kostnaði sem nemur fimm prósent í fyrsta skipti, þrjátíu prósent ef farið er í annað skipti en ríkið tekur engan þátt ef farið er í þriðja eða fjórða skipti.

Guðfinna Jakobsdóttir Hjarðar er með sjúkdóminn legslímuflakk, eða endómetríósu, sem valdið hefur miklum skaða á líffærum í kviðarholi hennar. Hún og unnusti hennar höfðu farið í tvær glasameðferðir til að reyna að eignast barn meðan gömlu reglugerðarinnar naut við og hafa þau fyrirhugað að fara í þá þriðju nú í upphafi árs. Með tilkomu nýja fyrirkomulagsins verður þeim gert að greiða þá meðferð, og aðrar ef til þess kemur, að fullu. Það gerir um 480 þúsund í hvert sinn.

Sjá einnig: Segir breytingar á greiðsluþátttöku við tæknifrjóvganir færa okkur lengra frá Norðurlöndunum

„Læknirinn minn telur að endómetríósan hafi haft mun meiri áhrif heldur en við gerðum okkur grein fyrir í upphafi. Þannig að núna er ég bara að bíða eftir símtali frá Landspítala um aðgerð en það á að fjarlægja vef í kviðarholinu. Í kjölfarið verðum við keyrð strax í þriðju meðferð,“ segir Guðfinna.

Eitt af hverjum sex pörum berst við ófrjósemi

Breytingarnar á fyrirkomulagi greiðsluþátttökunnar hafa þó ekki áhrif á áform þeirra Guðfinnu og Gunnars Ásgeirs Ásgeirssonar, unnusta hennar.

„Nei, því við erum bara í kapphlaupi við tímann. Ég er orðin 31 árs, eftir fjögur ár þá fer frjósemi mín að dala eins og allra kvenna í heiminum. Þannig að við höfum ekki val, við verðum að fara í þriðju meðferðina ef við ætlum að gera þetta svona,“ segir Guðfinna.

Þeim Guðfinnu og Gunnari þykir skjóta skökku við að ríkið komi ekki meira til móts við fólk sem hyggur á barneignir. Ófrjósemi sé sjúkdómur 21. aldarinnar og við því verði að bregðast.

„Maður er alltaf að sjá fréttir um það að fæðingartíðni á Íslandi hafi aldrei verið minni,“ segir Gunnar. Fólk sé í auknum mæli farið að kjósa vinnuferil fram yfir barneignir. „Þetta línurit sem að er sýnt, það er alltaf á leiðinni niður,“ bætir Gunnar við og Guðfinna tekur í sama streng.

„Eitt af hverjum sex pörum glímir við ófrjósemi. Það er tæplega 17 prósent af fólki á Íslandi í dag. Þetta er meira en fólk gerir sér grein fyrir.“

Ófrjósemi sé sjúkdómur eins og hver annar. Guðfinnu og Gunnari segjast því líða eins og annars flokks þegnum eftir að stjórnvöld ákváðu að leggja stein í götu þeirra - og annarra sem vilja eignast börn. Rætt var við Guðfinnu og Gunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, viðtalið við þau má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×