BBC greinir frá því að sprenging hafi orðið eftir að olíuþjófar höfðu rofið leiðsluna nærri bænum Tlahuelilpan í Hidalgo-ríki. Yfirvöld segja að mikill fjöldi fólks hafi í kjölfarið ruðst að leiðslunni og freistað þess að safna eins mikilli olíu og unnt var í ýmis ílát.
Því var mikill fjöldi staddur uppi við leiðsluna þegar sprengingin varð, myndskeið frá vettvangi sýnir umfang eldsvoðans og í sjónvarpsfréttum í Mexíkó voru sýndar myndir af fólki með alvarleg brunasár.
Olíuþjófnaður er alvarlegt vandamál í Mexíkó en auk þess að vera stórhættuleg iðja kostaði þjófnaður sem þessi Mexíkó yfir þrjá milljarða Bandaríkjadala á síðasta ári.
Tólf létust í sambærilegu slysi í Nígeríu fyrir viku síðan.