Kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm ára meistaranám fyrir rúmum áratug. Haft er eftir Lilju að það stefni í skort á kennurum sem sé grafalvarlegt mál.
Meðal hugmynda menntamálaráðherra er að fimmta árið í náminu verði launað. Þá nefnir Lilja að kennaranemar fái sérstaka styrki úr Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Norskar leiðir um niðurfellingu lána og launað starfsnám
Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, situr í starfshópi menntamálaráðuneytisins. Henni líst vel á hugmyndir um launað starfsnám. Anna María vísar til fyrirkomulags í Noregi þar sem nemar á síðasta ári leik- og grunnskólanámsins eru í 70% vinnu. Samhliða því vinna nemarnir að lokaritgerð og fá 30% launa sinna fyrir það frá ríkinu.Varðandi niðurfellingu á námslánum bendir Anna María á að í Noregi fái þeir mesta niðurfellingu sem fara að kenna á svæðum þar sem kennaraskortur er mestur.
Anna María bendir á að á endanum snúist umræðan um kennaraskort á Íslandi um kjör kennara í starfi.
„Það er kannski ekki kennaraskortur á Íslandi en það er vissulega kennaraskortur í íslenskum skólum því allt of margir kennarar hafa hætt að kenna og horfið til annarra starfa,“ segir Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands.