Bæjarráð sveitarfélagsins Árborgar hefur lýst yfir jákvæðri afstöðu til þess að fram fari rannsóknir á „náttúrulegum, viðskiptalegum og lagalegum forsendum þess að alþjóðaflugvelli verði fundinn staður í Árborg,“ að því er fram kemur í fundargerð ráðsins.
Tilefni bókunarinnar er bréf frá lögfræðingi óstofnaðs félags um verkefnið þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið upplýsi um afstöðu sína um framhald verkefnisins.
„Áður en haldið er áfram með verkefnið og ráðist er í kostnaðarsamar rannsóknir á jarðvegi, veðri, umhverfi og öðrum þáttum sem kynntir voru á íbúafundinum [8. janúar sl.], er nauðsynlegt að formleg afstaða sveitarfélagsins liggi fyrir,“ segir í bréfinu.
Í bókun bæjarráðs er minnt á að endurskoðun á aðalskipulagi Árborgar liggi fyrir dyrum og í þeirri vinnu sé mikilvægt að horfa til allra framtíðarmöguleika sveitarfélagsins.
„Endanleg afstaða sveitarfélagsins til þess hvort byggður verði slíkur alþjóðaflugvöllur ræðst svo af niðurstöðum aðalskipulagsvinnu, vilja íbúanna og hagsmunum samfélagsins,“ segir í bókun bæjarráðs.
