Erlent

Ársgamall drengur látinn eftir slys á leikskólanum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Bergen.
Frá Bergen. Mynd/Getty
Ársgamall drengur lést á sjúkrahúsi í Bergen í Noregi eftir slys á leikskóla í borginni í byrjun janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, sem send var út í morgun í samráði við foreldra drengsins.

Slysið varð þann 3. janúar síðastliðinn en í frétt NRK segir að drengurinn hafi fallið úr barnavagni á leikskólanum Akasia Paradis í Bergen. Við fallið flæktist band utan um háls drengsins og hlaut hann alvarlega áverka.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu lá drengurinn í barnavagninum inni í herbergi á ungbarnadeild leikskólans. Enginn fullorðinn var í herberginu þegar slysið varð. Þá er ekki vitað hversu lengi drengurinn lá í vagninum eða hversu lengi hann hékk í bandinu áður en hann fannst.

Drengurinn var fluttur á Haukeland-háskólasjúkrahúsið í Bergen í kjölfar slyssins og lést þar eftir langa legu.

Lögregla rannsakar nú slysið og tildrög þess en fjölmargir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið. Leikskólar í Noregi hafa margir endurskoðað verkferla sína í kringum hvíldartíma barna í kjölfar slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×