Nefndarmönnum í forsætisnefnd Alþingis hefur borist beiðni um mál Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns Samfylkingarinnar fari fyrir siðanefnd Alþingis og fái þar með sömu meðferð og mál þingmannanna sex sem ræddu saman á Klaustur bar í lok nóvember á síðasta ári. MBL greinir frá þessu.
Þetta staðfestir Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata í samtali við fréttastofu.
Sá sem sendi forsætisnefnd erindið hefur jafnframt óskað eftir nafnleynd og mun nefndin verða við þeirri ósk en í siðareglum Alþingis kemur fram að rökstudd erindi um brot á siðareglum megi aldrei bitna á sendanda þess.
Sá hinn sami telur að með framferði sínu hafi Ágúst Ólafur brotið gegn siðareglum Alþingis. Forsætisnefnd hefur ekki tekið afstöðu til málsins en málið verður til umræðu á þriðjudaginn eftir viku og þá verður hæfi nefndarmanna vegið og metið rétt eins og í „Klaustursmálinu“ svonefnda.
Ágúst Ólafur ákvað að taka sér launalaust leyfi frá þingstörfum í tvo mánuði vegna ósæmilegrar hegðunar gagnvart konu sem hann hitti í miðbæ Reykjavíkur síðasta sumar. Hann hlaut áminningu vegna málsins frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar.
Fari málið fyrir siðanefnd getur forsætisnefnd ákveðið um leið hvort álit nefndarinnar verði gert opinbert og birt á vef Alþingis.

