Theresa May, forsætisráðherra Breta, mun í dag kynna næstu skref varðandi Brexit eftir að breska þingið hafnaði útgöngusamningnum sem ríkisstjórn hennar og Evrópusambandið náðu samkomulagi um á síðasta ári.
BBC greinir frá því að May muni reyna að sannfæra samflokksmenn sína í Íhaldsflokknum sem og þingmenn Norður-írska sambandsflokksins (DUP) um að snúast á sveif með sér og útgöngusamningnum við ESB.
Mun hún reyna að eyða áhyggjum þeirra af framtíðarlandamærum Írlands og Norður-Írlands, sem hafa verið helsti ásteitingarsteinninn í Brexit-málunum öllum.
Fyrir helgi talaði May mikið um að vinna að lausn Brexit þvert á flokka en nú virðist ljóst að Verkamannaflokkurinn ætli ekki í þá vegferð. Því á hún aðeins þann kost í stöðunni að reyna að vinna samflokksmenn sína, sem hingað til hafa verið henni andsnúnir, á sitt band.
Í umfjöllun BBC segir að hún freisti þess nú að sýna leiðtogum Evrópusambandsins fram á að samflokksmenn hennar allir séu reiðubúnir til að greiða útgöngusamningi við ESB sitt atkvæði, þrátt fyrir að samningurinn tryggi ekki að landamærin á Írlandi verði opin um alla framtíð.
Samþykki breska þingið ekki neinn útgöngusamning gæti það farið svo að Bretland yfirgefi ESB þann 29. mars næstkomandi án samnings eða nokkurs aðlögunartímabils.
