Erlent

Íhaldsmaður ákærður í tengslum við rússneskan njósnara

Kjartan Kjartansson skrifar
Maria Butina hefur játað að hafa reynt að lauma sér inn í samtök bandarískra hægrimanna.
Maria Butina hefur játað að hafa reynt að lauma sér inn í samtök bandarískra hægrimanna. Vísir/AP
Bandarískur karlmaður sem átti í ástarsambandi við Mariu Butina, rússneska konu sem hefur játað að vera njósnari fyrir stjórnvöld í Kreml, hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti og fjársvik. Maðurinn er sagður vel þekktur innan Repúblikanaflokksins.

Saksóknarar í Suður-Dakóta lögðu fram ákæru í ellefu liðum gegn Paul Erickson á þriðjudag. Hann neitar sök, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Erickson, sem er 56 ára gamall, átti í ástarsambandi við Butina, sem er þrítug. Hún játaði sök um njósnir í desember. Hún viðurkenndi þá að vinna með háttsettum embættismönnum í Rússlandi að því að smeygja sér inn í Samtök byssueigenda (NRA) til þess að komast nær bandarískum íhaldsmönnum og Repúblikanaflokknum. Hún var fyrsti Rússinn sem var sakfelldur fyrir að reyna að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Ákæran gegn Erickson varðar meint svik hans í Suður-Dakóta frá 1996 til 2018. Þar á hann að hafa gefið „falska og svikula“ mynd af viðskiptagjörningum sínum til þess að sannfæra fjárfesta um að leggja honum til fé. Hann gæti átt allt að tuttugu ára fangelsi yfir höfði sér fyrir hvern ákærulið.

Dómari sleppti Erickson gegn tryggingu en ekki hefur verið ákveðið hvenær verður réttað yfir honum. Erickson hefur lengi verið virkur í Repúblikanaflokknum og vann meðal annars fyrir forsetaframboð Pats Buchanan árið 1992. AP-fréttastofan segir að ekki sé ljóst hvort að hann verði einnig ákærður í tengslum við mál Butina.


Tengdar fréttir

Rússar vilja Butina lausa

Sergei Lavron, utanríkisráðherra Rússlands, segir ásakanirnar gegn henni vera tilbúning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×