Stjörnufólk fjölmennir örugglega í Laugardalshöllina á morgun þegar bikarúrslitaleikir Geysisbikarsins fara fram. Bæði karla- og kvennalið Stjörnunnar spila þá til úrslita.
Karlalið Stjörnunnar hefur unnið bikarinn þrisvar sinnum áður en þetta er í fyrsta sinn sem kvennalið Stjörnunnar fer alla leið í bikaúrslitaleikinn.
Með því að koma báðum liðunum í bikarúrslitin á sama ári þá hefur Stjarnan náð því í þremur stærstu boltagreinunum á Íslandi, knattspyrnu, körfubolta og handbolta.
Engu öðru íslensku félagi hefur tekist þetta í þremur greinum en KR, Valur og Haukar hafa átt bæði lið í bikarúrslitum á sama tíma í tveimur greinum.
Handboltalið Stjörnunnar komust fyrst bæði í bikaúrslitin árið 1986 og urðu þá að sætta sig við silfur í báðum leikjum. Þremur árum síðar unnu bæði Stjörnuliðin aftur á móti bikarmeistaratitilinn.
Knattspyrnulið Stjörnunnar komust fyrst bæði í bikaúrslitin árið 2012 en endurtóku síðan leikinn síðasta haust. Kvennaliðið vann bikarinn 2012 en karlaliðið 2018.
Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þau félög sem hafa átt bæði liðin í bikaúrslitum á sama ári í þessum þremur stærstu boltagreinum landsins.
Félög með bæði liðin sín á sama tíma í bikaúrslitum:
Körfubolti (21 sinni)
7 sinnum - KR (1975, 1977, 1982, 1997, 2002, 2009, 2011)
6 sinnum - Keflavík (1990, 1993, 1994, 1997, 2003, 2004)
2 sinnum - ÍS (1978, 1980)
2 sinnum - ÍR (1979, 1989)
1 sinni - Haukar (1993)
1 sinni - Njarðvík (2002)
1 sinni - Grindavík (2006)
1 sinni - Stjarnan (2019)
Knattaspyrna (16 sinnum)
5 sinnum - KR (1994, 1995, 1999, 2008, 2011)
3 sinnum - ÍA (1983, 1984, 1993)
2 sinnum - Valur (1988, 1990)
2 sinnum - Breiðablik (2009, 2018)
2 sinnum - Stjarnan (2012, 2018)
2 sinnum - ÍBV (2016, 2017)
Handbolti (16 sinnum)
4 sinnum - Valur (1988, 1993, 2010, 2011)
3 sinnum - Haukar (1997, 2001, 2006)
3 sinnum - FH (1978, 1989, 1992)
2 sinnum - Stjarnan (1986, 1989)
2 sinnum - Fram (1987, 2018)
1 sinni - Grótta (2016)
1 sinni - Víkingur R. (1981)
Samantekt:
3 greinar - Stjarnan (Körfubolti, knattspyrna, handbolti)
2 greinar - KR (Körfubolti, knattspyrna)
2 greinar - Valur (Knattspyrna, handbolti)
2 greinar - Haukar (Handbolti, körfubolti)
Stjarnan einstakt félag á Íslandi: Fyrst með bæði lið í bikarúrslit á sama tíma í þremur greinum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
