Maðurinn sem slasaðist lífshættulega í slagsmálum við Borgarholtsskóla í gær liggur enn á spítala en ekki fengust upplýsingar um líðan hans hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mennirnir tveir sem áttu í hlut eru á fimmtugsaldri og þá liggur atburðarásin nokkuð skýrt fyrir, að sögn lögreglu.
Tilkynnt var um málið í dagbók lögreglu í gærkvöldi. Þar kemur fram að tveir einstaklingar hafi slegist svo heiftarlega við Skólaveg í Grafarvogi síðdegis í gær að annar var færður með sjúkrabifreið á slysadeild með lífshættulega höfuðáverka.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins. Aðspurður segir hann þó að vitað sé hver átti í hlut.
„Jú, jú, ég held að það sé nokkuð skýrt hvað gerðist þannig að það voru ekki taldir neinir rannsóknarhagsmunir í því að handtaka einhvern.“
Þá gat Margeir ekki sagt til um líðan mannsins sem fluttur var með lífshættulega höfuðáverka á slysadeild. Margeir segir manninn enn á spítala en lögregla bíði enn eftir fyrstu skýrslum af líðan hans.
Aðspurður segir Margeir mennina tvo, sem eru á fimmtugsaldri, ekki tengjast Borgarholtsskóla. Þá vildi hann ekki segja til um það af hverju mennirnir slógust í gær en það sé á meðal þess sem verið er að rannsaka. Ekki fékkst heldur uppgefið hvort kært yrði í málinu.
„Málið er bara í rannsókn og við erum að skoða það, með tilliti til þess meðal annars,“ segir Margeir.
