Lögregla í Ósló í Noregi hefur handtekið karlmann á fertugsaldri vegna gruns um að hafa myrt móður sína í nótt.
Lögregla var kölluð út að blokkaríbúð í hverfinu Ellingsrud í austurhluta norsku höfuðborgarinnar klukkan 4:30 að staðartíma í morgun.
„Það var karlmaður og kona í íbúðinni. Konan var úrskurðuð látin á staðnum,“ sagði yfirlögregluþjónninn Anne Alræk Solem á blaðamannafundi lögreglu í morgun.
Í frétt NRK segir að bæði mæðginin séu norskir ríkisborgarar og búsett í Ósló. Lögregla vildi ekkert segja til um hvaða ástæður kunni að liggja að baki morðinu.
