„Það er bara ekkert ferðaveður,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi. Hann segir að spár hafi ekki breyst mikið frá því fyrr í dag þegar fyrst var varað við veðrinu á morgun.
„Þetta kemur fyrst inn á Suður- og Suðausturlandið í nótt og lægir fyrst hérna á Suðurlandi og svo fer þetta hægt og rólega austur þannig að það lægir einna síðast á Austfjörðum og Austurlandi,“ segir Óli. Gert er ráð fyrir suðvestan 23-30 m/s hvassviðri með staðbundnum hviðum að 50 m/s í þeim landshlutum þar sem appelsínugula viðvörunin er í gildi.

„Það verður einhvers staðar á milli 40-50 metrar á sekúndu þar sem verst verður í hviðum. Þegar hviður eru komnar þangað erum við eiginlega farin að nálgast það að húsþök geti lent í vandræðum. Að fá svona hviðu á bíl á vegi, það getur orðið mjög snúið að halda bílnum á veginum við þannig aðstæður,“ segir Óli Jón.
Þá bendir hann á að þrátt fyrir að veður geti virst með ágætu móti víða á svæðinu á morgun sé varhugavert að halda af stað í ferðalög þar sem hviðurnar geri ekki boð á undan sér.
„Þó svo að staðbundið geti verið ágætis veður þá sérðu ekki 40-50 metra á sekúndu hviðu koma með neinum fyrirvara þannig að þú bara lendir á henni og átt ekkert séns,“ segir Óli Jón. Það fylgi suðvestanáttinni að hún geti verið mjög byljótt.
Reiknað er með að veðrið nái hámarki fyrir hádegi en gangi svo hægt og bítandi niður.
„Það fer að hvessa á milli fjögur og fimm á norðanverðu landinu. Á milli sex og níu fer þetta að ná hámarki og eftir hádegi fer að draga jafnt og þétt úr þessu.“