Innlent

Reyndi að ræna mann við Miklubraut

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þolandanum varð ekki meint af tilburðum ræningjans.
Þolandanum varð ekki meint af tilburðum ræningjans. vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um rán við Miklubraut á níunda tímanum í kvöld. Í skeyti frá lögreglu segir að ræninginn hafi ógnað brotaþola með hníf við verslun sem stendur við götuna. Þolandi hlaut ekki líkamlegan skaða af og þá náði ræninginn engum munum af honum. Sá síðarnefndi bíður nú yfirheyrslu í fyrramálið.

Skömmu fyrir klukkan 16 barst lögreglu svo tilkynning um mann sem lét illa í strætisvagni við Glæsibæ. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu en hann var í annarlegu ástandi.

Klukkan 17:55 var lögreglu tilkynnt um að einstaklingi væri haldið í Hafnarfirði vegna innbrota í bíla. Maðurinn var í slæmu ástandi sökum vímuefna og áfengis. Rætt verður við hann á morgun þegar víman rennur af honum.

Þá voru þrír til viðbótar handteknir í kvöld grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis- eða fíkniefna.

Mikill erill hefur verið á kvöldvak lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hátt í sextíu verkefni hafa komið inn á borð lögreglu það sem af er kvöldi, sem telst mikið, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×