Sport

Guðbjörg Jóna Íslandsmeistari í 60 metra hlaupi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðbjörg Jóna skaust upp á stjörnuhimininn síðasta sumar
Guðbjörg Jóna skaust upp á stjörnuhimininn síðasta sumar mynd/skjáskot
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er Íslandsmeistari í 60 metra hlaupi innanhúss. Juan Ramon Borges vann á sjónarmun í sömu vegalengd.

Guðbjörg kom fyrst í mark í úrslitunum í 60 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands sem haldið er í Kaplakrika um helgina.

Sigurtíminn var 7,54 sekúndur, þrettán sekúndubrotum betri en hjá Hafdísi Sigurðardóttur sem lenti í öðru sæti. Andrea Torfadóttir varð þriðja á 7,69 sem er jöfnun á hennar besta árangri.

Íslandsmetið í greininni á Tiana Ósk Whitworth frá því í fyrra 7,47 sekúndur.

Í karlaflokki hreppti Juan Ramon Borges Íslandsmeistaratitilinn. Hann kom í mark á sama tíma og Ísak Óli Traustason, 7,07 sekúndum, en vann á sjónarmun.

Þriðji varð Guðmundur Ágúst Thoroddsen á 7,12 sekúndum.

Guðbjörg Jóna var einnig á meðal keppenda í 400 metra hlaupi en þar varð hún að gera sér silfrið að góðu. Hún kom í mark á 56,38 sekúndum en sigurtíminn var 56,22. Hann átti Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH.

Mark Wesley Johnson gerði sér lítið fyrir og vann stangarstökk karla en hann er nýbúinn að draga fram skóna af hillunni. Hann stökk hæst 4,50 metra. Guðmundur Karl Úlfarsson varð annar og Þovaldur Tumi Baldursson þriðji.

María Rún Gunnlaugsdóttir hreppti Íslandsmeistaratitilinn í hástökki með því að stökkva 1,70 metra. Kristín Liv Svabo Jónsdóttir varð önnur og Helga Þóra Sigurjónsdóttir þriðja.

Í þrístökki var Irma Gunnarsdóttir hlutskörpust með stökki upp á 12,03 metra sem er bæting á hennar besta árangri. Hún vann með nokkrum yfirburðum en Hildigunnur Þórarinsdóttir var önnur með lengst 11,71 metra.

Kristinn Torfason vann þrístökkskeppni karla með stökki upp á 14,30 metra. Bjarki Rúnar Kristinsson varð annar og Viktor Logi Pétursson þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×