Erlent

Starfsmenn Microsoft vilja losna við samning við herinn vegna HoloLens

Samúel Karl Ólason skrifar
Í opnu bréfi til stjórnenda Microsoft, sem er titlað: „HoloLens til góðs, ekki til stríðs“, segjast starfsmenn fyrirtækisins ekki fengið vinnu hjá tæknirisanum til að framleiða vopn.
Í opnu bréfi til stjórnenda Microsoft, sem er titlað: „HoloLens til góðs, ekki til stríðs“, segjast starfsmenn fyrirtækisins ekki fengið vinnu hjá tæknirisanum til að framleiða vopn. AP/Swayne B. Hall
Starfsmenn Microsoft eru reiðir yfir því að fyrirtækið hafi gert 480 milljóna dala samning við bandaríska herinn vegna viðbótarraunveruleikagleraugnanna HoloLens. Í opnu bréfi til stjórnenda Microsoft, sem er titlað: „HoloLens til góðs, ekki til stríðs“, segjast starfsmenn fyrirtækisins ekki fengið vinnu hjá tæknirisanum til að framleiða vopn.

Þeir krefjast þess að fyrirtækið láti af allri þróun vopnatækni.

Ekki liggur fyrir hve margir hafa skrifað undir bréfið en á Twitter-síðu sem hópurinn stofnaði segir að þeir séu minnst hundrað.

Samkvæmt Reuters snýr umræddur samningur að því að Microsoft ætli að útvega hernum minnst 2.500 frumgerðir af gleraugum sem byggja á tækni HoloLens. Herinn hefur sagt að gleraugun yrðu notuð á vígvellinum og við þjálfun til að auka skilvirkni hermanna, hreyfanleika og yfirsýn þeirra.



Í tilkynningu frá Microsoft segir að fyrirtækið hafi ávallt metið skoðanir starfsmanna þess. Þá vísaði fyrirtækið til yfirlýsingar Brad Smith, forseta þess, í nóvember þar sem hann sagði forsvarsmenn Microsoft staðráðna í að starfa með hernum og á sama tíma kalla eftir lögum um ábyrga notkun tækni.



Starfsmenn tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum hafa að undanförnu gagnrýnt þau harðlega vegna notkunar tækni sem þeir hafa þróað fyrir fyrirtækin. AP fréttaveitan vísar til mótmæla starfsmanna Google í fyrra þegar þeir kröfðust þess að fyrirtækið hætti að þróa gervigreind fyrir herinn. Það leiddi til þess að Google hætti sinni aðkomu að verkefninu.



Þá gagnrýndu starfsmenn Microsoft fyrirtækið í fyrra fyrir að starfa með yfirvöldum í tengslum við málefni innflytjenda.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×