Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákært karlmann á fertugsaldri fyrir að stýra skipi undir áhrifum fíkniefna þann 14. desember síðastliðinn.
Fyrst var greint frá málinu á vef RÚV en samkvæmt ákærunni, sem Vísir hefur undir höndum, er maðurinn ákærður fyrir að vanrækja að skrá skipverja um borð með réttum hætti, fyrir að slökkva á staðsetningarbúnaði skipsins sem og fyrir að stýra því undir áhrifum amfetamíns.
Í ákærunni er því lýst að þegar maðurinn var að sigla inn til hafnar á Flateyri að kvöldi 14. desember sneri hann frá landi er hann varð lögreglu var á hafnarbakkanum.
Í kjölfarið slökkti hann á siglingaljósum skipsins og sinnti ekki skyldu sinni um að tilkynna staðsetningu í gegnum sjálfvirkt tilkynningakerfi. Maðurinn sigldi svo til hafnar á Suðureyri þar sem hann var handtekinn.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar starfsréttinda og til að greiða allan sakarkostnað.
Fjallað var um málið á Vísi á sínum tíma og kom meðal annars fram að björgunarsveitir fyrir vestan höfðu verið kallaðar út til þess að leita að bátnum.

