Innlent

Stúlka flutt á bráðamóttöku eftir að hafa verið byrlað ólyfjan

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Landspítalanum.
Frá Landspítalanum. Fréttablaðið/GVA
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um stúlku í austurbæ Reykjavíkur sem hafði verið byrlað einhverju. Tilkynningin barst klukkan 23:48 í gær en stúlkan var flutt á bráðamóttöku, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Tæplega þrjátíu mál voru til skoðunar hjá lögreglunni í gærkvöldi og nótt en í dagbókinni mátti til að mynda finna tilkynningu um mann sem reyndi að fara inn um opinn glugga í Breiðholti á fjórða tímanum í nótt. Húsráðandi kom að honum og lét gluggagægirinn sig hverfa.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um umferðaróhapp á Kársnesbraut í Kópavogi. Þar hafði bifreið verið ekið í holu með hvassar brúnir sem varð til þess að tveir hjólbarðar sprungu.

Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um þjófnað á söfnunarbauk Rauða kross Íslands úr verslunarmiðstöð í austurbænum en þjófurinn komst undan á reiðhjóli.

Á ellefta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um æstan mann í austurbæ Reykjavíkur sem var orðljótur og hótaði að berja lögreglumenn sem komu á vettvang og sparka í þá en gekk að lokum í burtu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×