Hún segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, eitthvað hafa misskilið hlutina ef hann telji að það hafi komið fram á fundinum að félögin fjögur hafi fallið frá kröfum sínum gagnvart stjórnvöldum.
„Það er hins vegar jákvætt að við fengum það fram hjá viðsemjendum okkar hér í dag að ófrávíkjanlegar kröfur þeirra á hendur stjórnvöldum eru niðurfallnar. Það er ákveðið fagnaðarefni fyrir alla sem sitja við samningaborðið þar sem það einfaldar okkur gerð kjarasamnings,“ sagði Halldór Benjamín við fréttamenn eftir að fundi lauk í dag.
„Ég held að þarna hafi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eitthvað verið að misskilja hlutina. Hér í þessu herbergi höfum við einungis verið í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þannig að hverjar kröfur okkar eru gagnvart stjórnvöldum og svoleiðis koma þessum samningaviðræðum ekkert við og mér finnst þetta sérlega óviðeigandi yfirlýsing frá honum,“ sagði Sólveig Anna.