Innlent

Handtekinn eftir slagsmál þriggja manna í miðbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku. Vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynningu um þrjá menn að slást í miðborginni á öðrum tímanum í nótt. Mennirnir hlutu minniháttar áverka við slagsmálin og var einn þeirra handtekinn. Hann var fluttur á lögreglustöð og látinn laus að lokinni skýrslutöku, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Á ellefta tímanum í gær stöðvaði lögregla ökumann í hverfi 109 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt dagbók lögreglu reyndi maðurinn að ljúga til um það hver hann væri en hann reyndist sviptur ökuréttindum. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þá barst lögreglu tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108 á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar var maður sagður ganga á milli bifreiða og athuga hvort þær væru ólæstar. Viðkomandi fannst ekki þrátt fyrir nokkra leit.

Fleiri ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum í gærkvöldi og í nótt. Þá tók lögregla skráningarnúmer af samtals 25 bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu í gær vegna vangoldinna trygginga eða vanrækslu á bifreiðaskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×