Finnur Freyr Stefánsson gerði KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð og er eini þjálfarinn sem hefur náð því í 35 ára sögu úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar.
Orðalagið Finnur „sem allt vinnur“ hefur verið mikið notað þegar menn fjalla um þennan frábæra þjálfara en sumir vilja líka ganga svo langt að kalla kappann „Fimmur“ en það er önnur saga.
Finnur Freyr hætti með KR-liðið eftir titilinn síðasta vor en þjálfar yngri flokka hjá Val, er aðstoðarþjálfari A-landsliðskarla og er yfirþjálfari yngri landsliða hjá KKÍ.
Finnur Freyr mun fara yfir nítjándu umferðina með þeim Hermanni Haukssyni og Teiti Örlygssyni. Teitur er einmitt sá leikmaður sem hefur unnið úrslitakeppnina oftast eða tíu sinnum.
Stöð 2 Sport sýnir leik Stjörnunnar og Njarðvíkur í beinni og hefst útsendingin klukkan 19.00. Domino's Körfuboltakvöld fer síðan í loftið klukkan 21.10.