Leit hófst í hádeginu af Páli Mar Guðjónssyni í Ölfusá, sem talið er að hafa ekið ofan í ánna á mánudagskvöld fyrir neðan Hótel Selfoss. Aðallega verður leitað með drónum en á morgun verða gönguhópar og bátar notaðir við leitina.
Gunnar Ingi Friðriksson, varaformaður Svæðisstjórnar stýrir leit dagsins.
„Verkefni dagsins er aðallega að leita með drónum og síðan verða einhverjir gönguhópar líka. Í fyrramálið verður meiri leit með bátum og gönguhópum. Það er fínt veður til drónaleitar og þess vegna var ákveðið að hafa þannig leit í dag, ég reikna með þremur til fjórum drónum“, segir Gunnar Ingi.
Í dag verður leitað á svæði fyrir neðan Selfossflugvöll og við Arnarbæli í Ölfusi. En er gott að nota dróna í svona leit?
„Já, sérstaklega á svona vatni því þeir sjá betur ofan í ánna þegar það er flogið yfir hana út af glampanum, þannig að þeir nýtast mjög vel í svona leit. Sérstaklega líka vegna þess að það er mikill ís og grynningar í ánni því þá er mjög erfitt að sigla eða vaða í ánni“.
En hvernig verður leitinni háttað á morgun, sunnudag ?
„Hann verður með stærri sniðum út af bátaleitinni. Við fáum björgunarsveitir af Suðvesturhorninu en þá er ég að tala um sveitir af Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess“, segir Gunnar Ingi.
