Efling og VR boða sameignlegar aðgerðir með vinnustöðvun félagsmanna þeirra sem nær til nær allra starfsmanna tuttugu stærstu hótela landsins. Þar má nefna Fosshótel, Íslandshótel, Flugleiðahótel, Cabin, KEA hótelin, Holtið, 101 hótel svo nokkur séu nefnd. Starfsemi þessarra hótela mun því að öllum líkindum lamast verði að aðgerðunum. Félögin munu boða til atkvæðagreiðslu um allar aðgerðirnar í einu í næstu viku.
Fyrsta verkfallið stendur yfir í sólarhring frá miðnætti hins 22. mars. Þar á eftir er boðað til tveggja sólarhringa verkfalls frá og með 28. mars og síðan kæmu þriggja daga verkföll frá og með 3. apríl, 9. apríl, 15. apríl og 23. apríl. Ef samningar hafa ekki náðst þegar þarna er komið yrði boðað til ótímabundins verkfalls frá og með verkalýðsdeginum1. maí. Þessi verkföll ná einnig til starfsmanna félaganna hjá rútufyrirtækjunum á höfuðborgarsvæðinu og hluta Suðurlands.

Að auki tilkynnti Verkalýðsfélag Akraness í dag að atkvæðagreiðsla um boðun allsherjarverkfall félagsmanna fari fram dagana 29. mars til 5. apríl. Samþykki félagsmenn verkfall myndi það hefjast hinn 12. apríl.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir verkföll valda miklu tjóni í samfélaginu og draga úr getu fyrirtækja til að standa undir launahækkunum í framtíðinni.
„Þannig að ég hef miklar áhyggjur af verkföllum. Verkföll mynda allra tjón í samfélaginu og það er eitthvað sem ég vil forðast í lengstu lög,” segir framkvæmdastjóri SA.
