Innlent

Niðurskurður fjárframlaga til jöfnunarsjóðs hljóti að vera mistök

Sighvatur Jónsson skrifar
Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að hugmyndir ríkisins um skerðingu fjármagns til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hljóti að vera fljótfærnisleg mistök sem verði leiðrétt. Fjármálaráðherra ætli að minnka framlög til sjóðsins um ríflega þrjá milljarða króna á næstu tveimur árum. Hvorki fjármálaráðherra né ráðherra sveitarstjórnarmála hafa viljað tjá sig um málið við fréttastofu í dag.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er afar ósátt við hugmyndir fjármálaráðherra á breytingum á framlögum til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hlutverk sjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga.

Hjá sveitarfélögum er talað um skerðingu fjárframlaga en hjá ríkinu talar fólk um að fjárframlög verði fryst, hækki sem sagt ekki umfram það sem þau eru í dag.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segist ekki trúa öðru en að þetta séu fljótfærnismistök sem verði leiðrétt. Samkvæmt útreikningum samtakanna nemi breytingin ríflega þremur milljörðum króna á tveimur árum.

Karl segir að tillögurnar komi mismunandi út fyrir sveitarfélög. Verst fyrir sveitarfélög á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum sem eru veik fyrir.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Aldís Hafsteinsdóttir, segir í samtali við fréttastofu að hún hafi rætt við fjármála- og sveitarstjórnarráðherra. Hún býst við að þeir boði fulltrúa sveitarfélaga á sinn fund á næstu dögum.

Sveitarfélögin hóta því að hætta þátttöku í samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×