Innlent

Sigríður afhenti Þórdísi lyklana að ráðuneytinu

Birgir Olgeirsson skrifar

Sigríður Andersen hefur afhent Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra, lyklana að dómsmálaráðuneytinu. 

Þetta gerði Sigríður rétt eftir klukkan eitt í dag en hún sagði af sér sem dómsmálaráðherra á miðvikudag til að skapa frið um þær ákvarðanir sem þarf að taka vegna dóms Mannréttindadóms Evrópu um að skipan dómara í Landsrétt hefði farið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í gær að Þórdís Kolbrún myndi taka við dómsmálaráðuneytinu tímabundið og sagði enn fremur að litið væri á það sem nokkurra vikna úrræði.

Sagði Sigríður í gær að hún væri afar ánægð með að Þórdís tæki við dómsmálaráðuneytinu enda þekkti hún málaflokkinn vel eftir að hafa verið aðstoðarmaður Ólafar Nordal þegar innanríkisráðherra. Taldi Sigríður að Þórdísi myndi ganga vel að skapa frið um dómsmálaráðuneytið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×