Innlent

Veittu dópuðum ökumanni eftirför úr Skeifunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og jók hraðann þegar lögreglumenn ætluðu að stöðva hann.
Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og jók hraðann þegar lögreglumenn ætluðu að stöðva hann. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti í nótt ökumanni bifreiðar eftirför úr Skeifunni og niður í Fossvog. Maðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Í dagbók lögreglu segir að lögreglumenn hafi ætlað að stöðva ökumanninn í Skeifunni en hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum og jók hraðann. Manninum var því veitt eftirför, sem lauk í Fossvogi. Þar komst ökumaðurinn úr bifreiðinni en var handtekinn síðar.

Maðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu slíkra efna. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Önnur verkefni lögreglu í gær og í nótt voru af ýmsum toga. Klukkan 19:27 var tilkynnt um innbrot í miðborg Reykjavíkur. Þar hafði maður brotið rúðu í hurð, farið inn og stolið áfengisflöskum. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu.

Þá var maður handtekinn í miðbænum klukkan 20 í gærkvöldi grunaður um bruggun áfengis. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku en áfengið og bruggtæki voru gerð upptæk.

Tilkynnt var um innbrot í Kópavogi á níunda tímanum. Sá sem þar var að verki hafði farið inn um glugga en ekki er vitað hverju var stolið.

Skömmu fyrir klukkan 22 í gærkvöldi var maður í annarlegu ástandi handtekinn á bílastæði við sjúkrastofnun í Fossvogi þar sem hann var búinn að brjóta rúður í þremur bifreiðum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Um klukkutíma síðar var tilkynnt um bílveltu á mörkum Laugardals og Árbæjar. Engin slys urðu á fólki en tveir menn voru handteknir grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá höfðu þeir aldrei öðlast ökuréttindi.  Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×