Erlent

Brexit-samningur May felldur aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May á þinginu í dag.
Theresa May á þinginu í dag. AP/Jessica Taylor
Breskir þingmenn hafa fellt Brexit-samning Theresu May, forsætisráðherra, á nýjan leik. Atkvæðagreiðslan var mjög afgerandi en 391 þingmenn greiddu atkvæði gegn samningnum en 242 greiddu atkvæði með honum.

Þegar þingmenn ræddu samninginn fyrr í dag varaði May við því að hætta væri á að ekkert yrði af úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu ef samningurinn yrði ekki samþykktur.

May lagði fram breytingar á honum sem varða írsku baktrygginguna svonefndu eftir samningaviðræður í gær og hélt því fram að þær tækju á áhyggjum Brexit-sinna um samninginn. Lögfræðiálit sem lagt var fyrir þingið í morgun gekk þó gegn þeirri fullyrðingu May.

Sjá einnig: May varar við því að ekkert verði af Brexit



Stefnt er á að Bretland gangi úr ESB þann 29. mars og er því ljóst að Bretar þurfa að grípa til einhverra aðgerða og það eins fljótt og auðið er.

Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar sagði May að þingmenn myndu á morgun greiða atkvæði um hvort að verða ætti af Brexit eða ekki og með hvaða hætti næstu skref verða tekin. Það er að segja hvort Bretland eigi að sækja um frest, fara úr ESB án samnings, hvort halda eigi aðra þjóðaratkvæðagreiðslu og svo framleiðis.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði ekki koma til greina að fara úr ESB án samnings. Það þyrfti því að komast að samkomulagi við forsvarsmenn sambandsins. Það er þó ekki víst vilji sé til slíks innan ESB.

Corbyn sagðist ætla að reyna að fá þingmenn til að styðja samningstillögu Verkamannaflokksins. Hann lagði þó til að réttast væri að boða til nýrra þingkosninga.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×