Samkvæmt breskum miðlum vill Theresa May forsætisráðherra láta reyna á það í þriðja skipti að ná meirihluta þingmanna utan um útgöngusamninginn sem hún hefur gert við ESB. Í fyrstu atkvæðagreiðslu var samningurinn felldur með sögulegum mun. Saman dró í annarri atkvæðagreiðslu en munurinn var þó mikill, 149 atkvæði.
Þingmenn tóku völdin í Brexit-málinu fyrr í vikunni. Á miðvikudagskvöld greiddu þeir atkvæði um átta tillögur um framhaldið, aðrar en samning May. Þar á meðal voru tillögur um aðild að EFTA, tollabandalagi ESB, aflýsingu Brexit, þjóðaratkvæðagreiðslu um samning May og samningslausa útgöngu.
Hver einasta tillaga var felld. Minnsti munurinn var í atkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að tollabandalaginu. Hún var felld með 272 atkvæðum gegn 264. Þótt lengi hafi verið rætt um að pattstaða sé komin upp í málinu á sú lýsing ef til vill betur við nú en nokkru sinni fyrr.
Framkvæmdastjórn ESB sagði í gær að ef breska þingið kæmist ekki að samkomulagi í vikunni yrði Brexit ekki frestað lengur en til 12. apríl. Útgangan yrði því í raun samningslaus. „Við sáum átta „nei“ í gærkvöldi. Núna þurfum við að sjá eitthvert „já“ um framhaldið.“

Þetta loforð og fyrrnefnd pattstaða virðist hafa borið nokkurn árangur. Jacob Rees-Mogg, einn leiðtoga hörðustu Brexit-sinnanna innan Íhaldsflokksins, greiddi atkvæði gegn samningnum í fyrstu tvö skiptin. Í gær sagðist hann ætla að styðja plaggið. „Samningurinn varð ekkert skyndilega betri. Hinir valkostirnir eru einfaldlega verri. Ég styð samninginn og vona að DUP taki sömu ákvörðun. Við þurfum að bíða og sjá hvað þau gera.“
Og þar virðist helsti vandi May liggja þessa stundina. Þótt ósáttir Íhaldsmenn séu margir hverjir komnir með henni í lið dugar það ekki til. Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins reiðir sig á stuðning DUP, eða Lýðræðislega sambandsflokksins, norðurírsks smáflokks.
DUP hefur greitt atkvæði gegn samningnum í bæði skipti. Afstaða flokksins grundvallast einkum á andstöðu við svokallaða varúðarráðstöfun um fyrirkomulag landamæra Írlands og Norður-Írlands, eða Bretlands. Ráðstöfunin felur í sér að Norður-Írar þurfi að fara að stærri hluta regluverks ESB en restin af Bretlandi og við þá uppskiptingu geta DUP-liðar ekki sætt sig.
Dagskrá þingsins í dag lá ekki fyrir þegar fréttin var skrifuð. Þingflokksformaður Íhaldsflokks sagðist ætla að leggja fram tillögu um Brexit fyrir daginn í dag. John Bercow þingforseti hefur áður neitað því að heimila atkvæðagreiðslu um samninginn ef hann er í sömu mynd og áður var felld.