Skoðun

Íslenska, skólamálið okkar

Kristján Jóhann Jónsson skrifar
Mikilvæg ráðstefna um íslenskukennslu í skólum landsins verður haldin í Hörpu 1. apríl. Þú ert vonandi búin(n) að skrá þig. Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnunni ásamt Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Vonandi hittast þar allir þeir sem hlynntir eru íslenskri tungu og menningu og vilja hag hennar sem mestan.

Íslenskan er skólamálið okkar, skrifaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, nýlega í grein og minnti þar á mikilvægt atriði. Fyrir okkur sem á Íslandi búum og störfum er íslenska sú kennslutunga sem skilar til okkar þekkingu utan úr heimi, túlkar og kennir önnur tungumál, geymir hugsun okkar um tæknilegan og persónulegan vanda, orðar skilning okkar og gerir okkur kleift að ræða fortíð okkar og framtíð.

Íslenskan er að vísu ekki sérstök að þessu leyti, nema fyrir okkur sem hér búum. Fyrir okkur er hún hins vegar jafn mikilvæg og danska fyrir Dani, norska fyrir Norðmenn, færeyska fyrir Færeyinga og hollenska fyrir Hollendinga, svo ég láti nú duga að taka dæmi frá næstu nágrönnum. Tungumál þessara þjóða eru eins og okkar þjóðtunga farvegur fyrir þroska og þekkingaröflun barna og unglinga, aðgangur að menningu og sögu fjölskyldna og ástvina og geyma tilvísanir, menningu og skilning á umhverfinu. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir þau svo vel sé.

Við þurfum að endurnýja hugsun okkar og umræðu um íslenska tungu og menningu. Við eigum kraftmikið, fallegt og dýrmætt tungumál sem við þurfum að fylgja inn í nýjan tíma og sjá til þess að fylgi okkur inn í framtíðina. Í því felst mikilvæg sérstaða okkar í heiminum. Það eru góð tíðindi að stjórnvöld skuli nú bretta upp ermar, boða til framsækinnar ráðstefnu og hafa í bígerð framhaldsumræður til að fylgja framkvæmdum eftir. Ráðstefnan Áfram íslenska – staða og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins er spennandi tækifæri til þess að uppfæra viðhorfið til íslenskrar tungu. Hún er enn við hestaheilsu, skemmtileg, skapandi og einstök á sinn hátt. Hins vegar eru blikur á lofti og okkur er skylt að hlúa að því sem dýrmætt er í okkar samfélagi.

Láttu nútímann ekki sem vind um eyrun þjóta! Hittu okkur í Hörpu til að ræða stöðu íslensku í skólum landsins.

Höfundur er dósent í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×