Göngudeildinni var lokað frá og með 1. mars síðastliðnum en í samtali við Vísi sagði Arnþór Jónsson, formaður stjórnar SÁÁ,að fjárskortur væri ástæða lokunarinnar.SÁÁ hafi ekki fengið í hendurnar 150 milljón króna framlag sem Alþingi samþykkti undir lok síðasta árs til reksturs göngudeildarinnar.

Svandís var spurð um málið af Njáli Trausta Friðbertssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Vildi hann fá upplýsingar um hver staða málsins væri í dag og hvort von væri á því að SÁÁ fengi fjármagnið sem um ræðir.
Vonar að málið klárist á morgun
Sagðist Svandís að í ljósi þess að göngudeildin hafi verið rekin fyrir sjálfsaflafé SÁÁ frá upphafi hafi það komið á óvart að göngudeildinni hafi verið lokað þegar von væri á fjárframlagi frá ríkinu til rekstursins í fyrsta skipti.„Þá kom á óvart að mönnum skyldi verða svo brátt sem ljóst er að loka starfseminni. Það kom mér á óvart og olli mér vonbrigðum,“ sagði Svandís.
Í máli hennar kom einnig fram að hún hafi átt von á fá spurningu um göngudeildina á þingi í dag, því hafi hún í morgun spurt sérstaklega um málið og fengið þær upplýsingar að „samningaviðræður gangi vel og að Sjúkratryggingar Íslands reikni með því að ljúka samningagerð mjög fljótlega.“
Á morgun væri fundur um málið og vonaðist ráðherra til þess að það verði fundurinn sem lokar málinu.