Ísland hefur þrisvar spilað við Frakka á þessari öld og Birkir hefur semsagt skorað í öllum þeim leikjum. Það sem meira er; allir þrír leikir hafa farið fram í Frakklandi.
Fyrsti leikurinn var vináttulandsleikur sem fór fram í Valenciennes í maí árið 2012. Lars Lagerbäck hafði tekið við landsliðinu nokkrum mánuðum áður og var að undirbúa lið sitt fyrir undankeppni HM 2014.
Leiknum lyktaði með 3-2 sigri Frakka en auk Birkis skoraði Kolbeinn Sigþórsson fyrir Ísland í leiknum.

Þessir sömu skoruðu einmitt líka í næsta landsleik gegn Frökkum en hann var við öllu stærra tilefni. Liðin mættust þann 3. júlí 2016 á þjóðarleikvanginum, Stade de France, í fjórðungsúrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu. Vafalaust stærsti landsleikur sem Ísland hefur spilað - í húfi var sæti í undanúrslitum á stórmóti og augu heimsbyggðarinnar var á strákunum okkar eftir frábæran árangur á EM 2016.
Þetta reyndist síðasti leikur Íslands sem Lars Lagerbäck stýrði. Frakkland vann leikinn, 5-2, en sem fyrr segir skoruðu Birkir og Kolbeinn mörk Íslands. Frakkar voru einfaldlega of stór biti fyrir okkar menn á þessum degi - Ísland hafði teflt fram sama byrjunarliðinu í öllum fimm leikjum sínum á mótinu og Frakkar kafsigldu íslenska liðið með fjórum mörkum í fyrri hálfleik.
Síðast mættust liðin í Guingamp, þann 11. október síðastliðinn. Um vináttulandsleik var að ræða og nú var Erik Hamren tekinn við liðinu. Frakkland var og er enn ríkjandi heimsmeistari en okkar menn gerðu sér lítið fyrir og komust í 2-0 forystu með mörkum Birkis og Kára Árnasonar.
Frakkar náðu þó að skora tvö mörk á lokakafla leiksins og forðast niðurlægingu á heimavelli.
Á síðustu rúmum tveimur áratugum hafa Ísland og Frakkland mæst fimm sinnum. Ísland hefur skorað í öllum þeirra, samtals níu mörk eða 1,8 mark að meðaltali í leik. Frakkar unnu þrjá leiki af þessum fimm og tveimur lyktaði með jafntefli.

Að síðustu má nefna að Ísland lék tvo fræga landsleiki undir lok síðustu aldar við Frakka. Í þeim fyrri mættu nýkrýndir heimsmeistarar Frakklands á Laugardalsvöll og máttu sætta sig við 1-1 jafntefli. Ríkharður Daðason skoraði mark Íslands framhjá Fabian Barthez í leiknum en stuttu síðar náði Christophe Dugarry að jafna fyrir frakka.
Ísland spilaði svo frábærlega þegar liðin mættust í Frakklandi þann 9. október 1999. Brynjar Björn Gunnarsson og Eyjólfur Sverrisson skoruðu en Frakkar náðu að knýja fram 3-2 sigur.