Erlent

Þrettán hundrað farþegar hífðir upp í þyrlur við hættulegar aðstæður

Samúel Karl Ólason skrifar
Flutningarnir munu taka langan tíma. Þar til þeim líkur, verður skipinu siglt hægt frá landi.
Flutningarnir munu taka langan tíma. Þar til þeim líkur, verður skipinu siglt hægt frá landi. Vísir/AP
Áhöfn norska skemmtiferðaskipsins Viking Sky sem varð vélarvana við strendur Noregs í dag, tókst að varpa akkeri og koma annarri vél skipsins í gang. Skipið var þá að reka að landi nærri Møre og Romsdal í sunnanverðum Noregi. Verið er að flytja alla 1.300 farþega frá borði með fimm þyrlum.

Hífa þarf farþegana upp, einn í einu, og hefur það reynst erfitt vegna sterkra vinda. Vindurinn, og öldugangurinn sem honum fylgir, gerir þó ómögulegt að flytja farþega frá borði með öðrum hætti.

Samkvæmt NRK er vonast til þess að áhöfninni takist að ræsa hina vél skipsins og þá verði hægt að hætta við að flytja farþega frá borði. Flutningarnir munu taka langan tíma. Þar til þeim líkur, verður skipinu siglt hægt frá landi. Minnst hundrað farþegar hafa verið fluttir frá borði.



Minnst fjórir farþegar hafa verið fluttir á sjúkrahús með skrámur og jafnvel beinbrot. Fjöldi fólks hefur komið á vettvang til að fylgjast með aðgerðum og hefur lögreglan þurft að biðja fólk um að halda sig frá svo björgunaraðilar hafi rými til aðgerðanna.

Einar Knudsen, frá björgunarsveitum Noregs, segir björgunaraðgerðirnar vera nokkuð hættulegar. Þær séu þó í umsjón bestu björgunaraðila heims.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×