Tæplega sólarhrings verkfall um sjö hundruð starfsmanna hótela innan Eflingar hinn 18. mars síðastliðinn og boðað sólarhrings verkfall ríflega tvö þúsund manns innan Eflingar og VR á fjörutíu hótelum og í störfum hjá rútufyrirtækjum á miðnætti, eru hörðustu aðgerðir á almennum vinnumarkaði í mörg ár.
Fyrir utan langt verkfall sjómanna árið 2017 og þar á undan voru verkfallsaðgerðir boðaðar hjá VR árið 2015 en þeim var aflýst á síðustu stundu. Segja má að friður hafi ríkt á almenna vinnumarkaðnum allt fráþjóðarsáttarsamningunum árið 1990 þótt tekist hafi verið á við samningagerð undanfarin ár.
Það er líka nýtt að VR og félög innan Starfsgreinasambandsins fari í samflot eins og Efling, Verkalýðsfélög Akraness og Grindavíkur hafa verið í með VR undanfarna mánuði. VR er um margt ólíkt félögunum innan Starfsgreinasambandsins. Þótt vissulega megi finna hópa afgreiðslufólks á lágmarkslaunum innan VR er breiddin þar meiri en innan félaga verkamanna og verkakvenna.

Eftirvinna aðeins til hjá VR
Innan VR eru hópar sem stunda alls kyns skrifstofustörf og eru með laun langt yfir taxtalaunum en innan Eflingar, fjölmennasta félags Starfsgreinasambandsins, er breiddin minni og stærri hópar ófaglærðra sem taka laun samkvæmt töxtum eða fá litlar yfirborganir.Þá samdi VR um það fyrir mörgum árum að halda inni ákvæðum um eftirvinnu, sem gefur 40 prósenta álag á dagvinnukaup. Eftirvinnuhugtakið hvarf hins vegar úr samningum annarra verkalýðsfélaga fyrir mörgum árum. Þar er allur vinnutími fram yfir dagvinnu talinn sem yfirvinna með 80 prósenta álagi á dagvinnukaupið.
Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er ekki einhugur innan stjórnar VR um stefnu formannsins Ragnars Þórs Ingólfssonar. Margir stjórnarmenn telja til dæmis að Ragnar Þór hefði átt að kynna drög að samningi sem Guðbrandur Einarsson, fyrrverandi formaður Landssambands verslunarmanna, sagði í gær að legið hafi fyrir, fyrir stjórn VR en ekki hafna þeim án nokkurrar umræðu.
Ef sólarhringsverkfalið skellur á á miðnætti má segja að brotið verði í blað í sögu átaka á almenna vinnumarkaðnum. Verkfallið gæti ýtti samningsaðilum til að semja en gæti líka hleypt illu blóði í samningsaðila.