Sport

„Ég dó eiginlega á hlaupabrautinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kemoy Campbell, lengst til vinstri, á HM í Peking 2015.
Kemoy Campbell, lengst til vinstri, á HM í Peking 2015. Getty/Ian Walton
Jamaíski frjálsíþróttamaðurinn Kemoy Campbell segir að læknarnir hafi sagt við sig að hann hafi í raun „dáið“ á hlaupabrautinni á Millrose-leikunum í New York í febrúar.

Kemoy Campbell var héri í 3000 metra hlaupi þegar hann féll niður og útaf brautinni. Hann fékk sem betur fer aðhlynningu strax og var fluttur í flýti á sjúkrahús.

„Ég man ekkert eftir þessu,“ sagði Kemoy Campbell við BBC.

„Læknarnir sögðu mér að hjartað mitt hafi hætt að slá og ég dó eiginlega þarna. Þetta var mjög ógnvekjandi móment fyrir mig,“ sagði Campbell .





Kemoy Campbell var á sjúkrahúsi í sautján daga en er nú kominn með gangráð og farinn að huga að endurhæfingu.

Læknarnir gátu aftur á móti ekki fundið ástæðuna fyrir því að hjarta hans hætti að slá.

„Ég vaknaði upp í sjúkrarúmi á mánudeginum,“ sagði Kemoy Campbell en þá voru tveir dagar liðnir frá hlaupinu.

„Ég vissi ekki hvar ég var eða hvernig ég komst þangað. Það var vakti upp ótta hjá mér að ég hafði þarna misst úr tvo heila daga og mundi auk þessi ekkert hvað hefði gerst,“ sagði Campbell.

Kærasta Campbell hefur sett upp söfnunarsíðu fyrir hann og Reebok, sem var hans styrktaraðili, gaf honum 50 þúsund dollara til að hjálpa við að borga gríðarlega háan lækniskostnað hans.

Kostnaðurinn er mikill af því að Campbell var ekki með neina sjúkratryggingu.

Kemoy er ekki búinn að gefa upp alla von um að snúa aftur inn á frjálsíþróttabrautina en hann þarf að fara varlega af stað.

„Kannski get ég byrjað rólega og byggt síðan ofan á það. Ef það gengur ekki þá er ferillinn búinn,“ sagði Kemoy Campbell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×