Þáttastjórnendur ræddu við Kristján Sigurjónsson ritstjóra í þættinum í dag þar sem hann var spurður hvort erlend flugfélög væru að reyna að fylla í það skarð sem WOW air skilur eftir sig eftir að hafa orðið gjaldþrota.
Kristján sagði sumaráætlun flugfélaga hafa tekið gildi í gær og ekki væru teikn á lofti um að erlend flugfélög ætluðu sér að bæta í fyrir sumarið, en það yrði vonandi á komandi vetri.
Hafði Kristján rætt við forsvarsmenn Lufthansa sem sögðu honum að Ísland væri mikilvægur markaður fyrir flugfélagið en að svo komnu yrði ferðum ekki bætt við til landsins.
Sagði Kristján að sumarið gæti orðið erfitt fyrir ferðaþjónustuna hér á landi þar sem ekki tækist að fylla þetta skarð að fullu.
Hollenska flugfélagið Transavia tilkynnti í dag að það myndi hefja áætlunarferðir á milli Amsterdam og Keflavíkur 5. júlí næstkomandi eftir að hafa átt í viðræðum við Isavia, sem rekur flugvelli á Íslandi.
Kristján benti á að WOW air hefði fyrir gjaldþrotið verið búið að minnka umsvif sín talsvert og því var útséð að höggið yrði eitthvað. Hann bætti við stór hluti þeirra farþega sem WOW flutti til landsins hefðu verið svokallaðir tengifarþegar sem stoppuðu eingöngu á Keflavíkurflugvelli áður en þeir héldu leið sinni áfram yfir hafið. Sagði hann þessa farþega um 60 prósent af öllum farþegum WOW og því hefðu þeir engin áhrif á ferðaþjónustu hér á landi.

Kristján sagði að það skipti Icelandair mun meira máli að fylla upp í skarðið hér landi en erlendu flugfélögin.
Hann benti á að tap Icelandair hefði numið 7 milljörðum í fyrra og tap WOW air 22 milljörðum, sem gerði þrjátíu milljarða samtals. Augljóst væri að flugfélögin hefðu þar með greitt með farþegum sem þau fluttu og því útséð að hækka þurfi fargjaldið.
Sagði hann að WOW air hefði verið með áætlanir um að flytja þrjár milljónir farþega, ef miðaverðið hækkaði um þúsund krónur væru það þrír milljarðar aukalega. Hækkunin þyrfti því ekki að vera svo mikil.
Hann sagði það enga launung að WOW air hefði staðið undir þessum miklu flutningum á Íslendingum til Tenerife undanfarin ár. Það var flugleið sem haldið var úti fyrir íslenska neytendur og nú gæti orðið samdráttur þar á.