Öllu flugi frá Keflavíkurflugvelli hefur verið frestað til 17:30, að því er fram kemur á vefsíðu Isavia. Aftakaveður er á svæðinu sem veldur röskun á flugi.
Áætluð brottför þeirra flugvéla félagsins sem fara áttu í loftið á milli 16:10 og 17:15 er nú skráð 17:30 á flugáætlun Keflavíkurflugvallar. Þá hefur einni flugferð Wizz Air einnig verið frestað til 17:30.
Guðjón Helgason upplýsingafulltrú Isavia segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki fengið upplýsingar um neinar seinkanir á flugferðum Icelandair en vísaði á áðurnefnda flugáætlun á vef Isavia. Ekki hefur náðst í Ásdísi Ýr Pétursdóttur upplýsingafulltrúa Icelandair vegna málsins í dag.
Í dag var greint frá því að landgangar hafi verið teknir úr notkun á Keflavíkurflugvelli vegna of mikils vindhraða. Guðjón segir að nú á fimmta tímanum séu fjórtán flugvélar á vellinum að bíða eftir því að farþegum verði hleypt frá borði.
Öllu flugi Icelandair frá Keflavík frestað til 17:30
Kristín Ólafsdóttir skrifar
