Innlent

Enn ein lægðin væntanleg á morgun með stormi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Enn ein lægðin á leiðinni.
Enn ein lægðin á leiðinni. Vísir/vilhelm
Í dag má búast við svipuðu veðri og hefur verið undanfarna daga og á morgun er svo von á enn einni lægðinni til landsins, með stormi sunnan- og suðvestanlands, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð suðaustan strekkingi á landinu, vætu með köflum vestanlands, talsverðri rigningu suðaustantil og bjartviðri með köflum fyrir norðan. Á morgun kemur enn ein lægðin upp að landinu með hvassviðri eða stormi sunnan- og suðvestantil og vætusömu veðri sunnan- og vestanlands. Hiti verður einnig svipaður eða upp í um 13 stig fyrir norðan. 

Fram að helgi er svo útlit fyrir áframhaldandi mildar suðlægar áttir með rigningu sunnan- og vestantil, en þurrt fyrir norðan. Um páskahelgina má búast við kólnandi veðri og gæti úrkoman farið úr rigningu í slyddu, en ekki er útlit fyrir að veður hafi áhrif á ferðalög yfir hátíðarnar, a.m.k ekki samkvæmt nýjustu spám, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt 15-23 m/s, hvassast syðst, og rigning með köflum, en talsverð rigning SA-til. Heldur hægari vindur og léttskýjað á N-landi. Hiti 7 til 13 stig. 

Á miðvikudag, fimmtudag (skírdagur) og föstudag (föstudagurinn langi):

Suðlæg átt, víða 8-15 m/s, og rigning eða súld með köflum, einkum SA-lands, en lengst af þurrt NA-til. Hiti yfirleitt 6 til 13 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á laugardag:

Suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum en þurrt og bjart um NA-vert landið. Kólnar í veðri. 

Á sunnudag (páskadagur):

Útlit fyrir að snúist í austlæga átt með rigningu eða slyddu víða, en að mestu þurrt fyrir norðan. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×